Forritun fyrir alla

Kóder eru samtök sem vilja kynna forritun fyrir ungmennum á aldrinum 6-16 ára í sínu hverfi.

Námskeiðin eru sett upp í félagsmiðstöðvum og skólum sem sækja um að fá námskeiðið til sín. Námskeiðin eru um 10 klst sem dreift er yfir nokkra daga eftir aðstæðum. Við notumst við okkar eigin tölvur sem krefjast lágmarks orku, eru ódýrar í rekstri og bjóða upp á möguleika sem almennar borðtölvur/fartölvur gera ekki.

Láttu okkur koma með námskeiðið til þín!

Sumarbúðir Kóder!

Í júlí mun Kóder halda þrjár vikulangar forritunar-sumarbúðir fyrir 10 - 12 ára ungmenni. Þátttökugjald er 40.000kr á hvern einstakling. Þær verða haldnar í Íþróttahúsi Þykkvabæjar. Hægt er að fá nánari upplýsingar á http://sumar.koder.is þar sem opnað hefur verið fyrir skráningu.

Blogg

Kóder í Búdapest

Mið, 28. Mar 2018

Síðastliðna þrjá mánuði hefur Kóder verið í samstarfi við sambærileg samtök frá Ungverjalandi sem heita Skool. Markmið samstarfsins er tvíþætt. Annars vegar snýst það um upplýsingamiðlun, það er, að samtökin ... meira

MakeyMakey á Borgabókasafninu

Lau, 04. Mar 2017

Borgarbókasafnið og Kóder hafa tekið höndum saman á ný. Við höldum áfram þar sem frá var horfið og höldum nú reglulegar vinnustofur á Borgarbókasafninu í Gerðubergi, Spönginni og Grófinni. Í ... meira

Sumarnámskeið í Reykjanesbæ

Mið, 18. Maí 2016

Í sumar verða haldin námskeið í Reykjanesbæ á vegum Kóder. Námskeiðin sem verða haldin eru Scratch, Python/Minecraft og Vinnubúðir í vefforritun. Námskeiðin verða haldin 13. - 15. júní. Nánar um ... meira

Ég vil meira

Námskeið

Ég vil meira

Algengar spurningar

Hér eru algengar spurningar um námskeiðið. Ef þú vilt bæta við spurningu þá getur þú sent okkur póst.

Hvað er Raspberry Pi?

Raspberry Pi er 6.000 kr tölva sem er hönnuð og smíðuð í Bretlandi af góðgerðarsamtökunum Raspberry Pi Foundation. Markmið þeirra er að gera fólki á öllum aldri kleyft að læra tölvuvísindi án mikils tilkostnaðar. Tölvan er notuð í kennslustofum út um allan heim og vegna lítillar orkunotkunar og lágs verðs gerir það hana heppilega sem kennslutól hvar sem er.

Tölvan keyrir Linux stýrikerfið og hefur alla eiginleika heimilistölvunnar (vafri, tölvupóstur, video, tölvuleikir, o.s.f.v.).

Það sem Raspberry Pi hefur framyfir heimilistölvur eru gagnapinnar sem hægt er að tengja við skynjara, ljós og annan rafrænan búnað sem taka við eða senda frá sér stafræn gögn. Notendur geta því lært að forrita einfaldar stýringar og læra á sama tíma undirstöðurnar í gagnasamskiptum raftækja.

Þetta gerir Raspberry Pi heppilegri en hefðbundnar heimilistölvur sem bjóða ekki upp á þennan möguleika.

Afhverju Raspberry Pi?

Um samtökin

Kóder eru félagasamtök sem stefna að því að gera forritun aðgengilega fyrir börn og unglinga úr öllum þjóðfélagsstigum. 

Með því að kynna forritun fyrir börnum og unglingum er verið að opna þeim nýjar dyr innan tölvuheimsins. Í stað þess að vera einungis neytendur á afþreyingarefni og tölvuleikjum efla þau eigin rökvísi, sköpunargáfu og læra vandamálagreiningu frá unga aldri.

Samtökin vilja einnig fóstra gerðu-það-sjálf/ur (DIY) kúltúr og notast við það afgangshráefni (stundum kallað rusl) sem til fellur frá samfélaginu. Með því að rífa í sundur raftæki sem annars lenda á haugunum er hægt að endurnýta mikið af íhlutum aftur.

Sem stendur er ekki boðið upp á heildstæða forritunarkennslu í grunnskólum en börn og unglingar hafa átt þess kost að sækja sér slíka kennslu hjá einkafyrirtækjum. Evrópusambandið hefur skilgreint færni í upplýsingatækni, þar á meðal forritun, sem lykilfærni framtíðarinnar.  Samkvæmt könnun sem sambandið gerði á meðal 27 Evrópuríkja kemur í ljós að 95% af þeim eru annaðhvort byrjuð á að setja forritun á námsskrá eða ætla að gera þá á næstunni.  Ísland er ekki þar á meðal (sjá heimild).

Vegna kostnaðar er hætt við að það reynist einungis mögulegt fyrir börn og unglinga frá betur stæðum heimilum. Þó mögulegt sé að nýta frístundaávísanir upp í verðið þá þýðir það að fórna þurfi öðrum tómstundum í staðinn.

Ein birtingarmynd efnahagslegs ójöfnuðar er skortur á tækifærum fyrir ungmenni frá tekjulágum heimilum. Hér á landi er kostnaðarsamt að eiga ungmenni sem stunda fleiri en eitt tómstundarstarf og því hafa tekjulágir foreldrar ekki sama möguleika og tekjuháir á því að borga tómstundir barna sinna.

Hugmyndin á bak við Kóder er að brúa þetta bil milli tekjuhópa og veita með því börnum frá tekjulágum heimilum möguleika á þekkingu sem verður æ verðmætari með hverju árinu. 

Markmið Kóder er að bjóða upp á námskeið sem allir hafa aðgang að óháð tekjum. Boðið verður upp á tilraunanámskeið í tekjulægri hverfum Reykjavíkur á fyrstu þremur mánuðum ársins 2016.

Með tíð og tíma er stefnt að því að halda námskeiðið víðar og bjóða upp á námskeið á öðrum tungumálum en íslensku. Hugsjón samtakanna nær einnig út fyrir landsteinana og verður vonandi boðið upp á námskeið erlendis í framtíðinni.

Í kennslunni verður notast við frjálsan hugbúnað og 6.000 króna tölvu (Raspberry Pi). Samtökin munu kappkosta að fá fyrirtæki til að styrkja verkefnið svo hægt sé að bjóða upp á námskeiðið gegn lágmarksgjaldi eða frítt ef nægir styrkir berast.

Á Íslandi ríkir skortur á forriturum og öðru tæknimenntuðu fólki. Það er því bæði hagur fyrirtækja og samfélagsins alls að búa sem best að yngstu kynslóðinni og veita öllum sömu tækifæri.

Kóder.is er skráð sem frjáls félagasamtök (4. tl. 2. gr. laga nr. 17/2003), svo hægt sé að taka við greiðslum. Hinsvegar, þá hagnast meðlimir Kóder.is ekki á verkefninu, né höfum við áhuga á því.

Kóder teymið

Elísabet Ólafsdóttir

Meðstofnandi og gjaldkeri

Bókmenntafræðingur

Kennsluréttindi

Átján ára reynsla í verkefnastjórnun

Tveggja barna móðir

betan.io

Soffía Ingibjargardóttir

Mentor og ritari

Tölvunarfræðingur

Tæknimaður netlausna hjá Nýherja

Margra barna móðir

Hefur unnið með börnum í fleiri ár

Eyþór Máni Steinarsson

Formaður

Viðskiptafræðinemi í Háskóla Íslands

Hugbúnaðarsérfræðingur hjá Advania

Fjörurra barna bróðir

Ástríða fyrir menntun

eythormani.com

Kristofer Henry

Formaður Mentoraráðs 

Áhugamaður um tækni

Starfsmaður í gagnaveri Advania

Mosfellingur

Brennandi áhugi á kennslu

Pantaðu námskeið núna fyrir þinn skóla, félagsmiðstöð eða ef þú hefur sambærilegt rými til yfirráða.

Panta námskeið

Styrkja Kóder.is

Hægt er að styrkja Kóder.is með margvíslegum hætti. Ein vinnustöð samanstendur af Raspberry Pi og jaðartækjum (skjár, lyklaborð, mús, SD kort og kaplar) og kostar u.þ.b. €150 evrur (um 21 þúsund kr). Til að halda kostnaði niðri setjum við vinnustöðina saman sjálf.

Einnig er hægt að styrkja einstaka þáttakendur með fríu plássi með styrk upp á €75 evrur (um 10.000 þúsund krónur).

Hafðu samband við okkur ef þú eða fyrirtæki þitt getur hjálpað.

Eftirfarandi fyrirtæki og stofnanir styðja við bakið á okkur ásamt fjölmörgum einstaklingum sem hafa lagt okkur lið.

Hafa samband

Sendu okkur póst ef þú vilt fá frekari upplýsingar um samtökin, námskeiðin, til að panta námskeið í þínu hverfi eða til að styrkja Kóder.is

Senda fyrirspurn

Kóder.is

Áhugi barna á tölvutækni helst ekki í hendur við framboð á námi og verð á námskeiðum í forritun fyrir krakka eru ekki viðráðanleg fyrir tekjulægstu hópa samfélagsins. Við viljum að ungir krakkar geti sótt þetta nám án þess að þurfa að ferðast langar leiðir og greiða fyrir það háar upphæðir. Til að læra forritun er ekki þörf á dýrum vélbúnaði og með því að koma með námskeiðið í þeirra hverfi er ekki þörf fyrir samtökin að reka húsnæði.

Þú getur notað formið hér til að senda okkar póst eða sent okkur póst beint á koder [at] koder.is